Færsluflokkur: Bloggar

Kirkjulygasaga.

bókinÞetta er bókin sem breytti öllu þegar hún reif af mér augnlokin og ég sá loksins skýrt að allt var lygi. Ég var á þriðja ári í klerksnámi og langaði til að vita hvað hefði verið á seyði fyrstu 300 árin í kristni því kennd kirkjusaga byrjar um 325. Fyrir þann tíma var allt í þoku og lítið um kennt. Fór til prófessorsins í kirkjusögu og spurði hann hvort eitthvað væri til um þetta. Hann benti mér á þessa bók. Hún var gefin út rétt fyrir seinni heimsstyrjöld. Þegar ég fór á bókasafnið reyndist það geitarhús. Bókmeyjar bókhlöðu þjóðar minnar sögðust því brosandi og með blik í brillum myndu faxa fyrir mig fyrirspurnir til útlanda og freista alls í þeim efnum að finna ritið lifandi eða dautt. Eftir 8 mánuði, ítrekaðar erindisleysur um allan heim og einstaka þrautseigju og harðfylgi bókavarðanna blíðu fannst loks slitið eintak í fjallaþorpi í Kanada á ensku sem barst fyrir kraft alþjóðlegs millisafnalánasamnings vitsmunavera kalið og snjáð í hendur mér og mátti ég hafa í hálfan mánuð. Að lesa þessa bók var kristilegt kjaftshögg á hverri síðu og rothögg á sumum, Lét ljósrita dýrið til eignar og skilaði síðan opinberuninni germönsku til síns heima. Eftir lesturinn skildi ég hvers vegna lærifaðir minn, presturinn, benti mér á hana. Hann vissi að hún var týnd og tröllum gefin en taldi sig með þessu trixi geta leitt mig afvega út á endalausan mel og haldið kennaraheiðri um leið og hann dræpi bölvaða forvitni besta nemanda síns. Hún er nefnilega skrifuð af þýskara og enginn vildi gefa hana út á ensku eftir stríð nema einn sérvitur útgefandi í amerískum afdal og í örfáum eintökum sem fór síðan á hausinn. Og hann vissi þetta því hann tók doktorinn kirkjulygasögu í Þýskalandi. Síðan var henni kerfisbundið stolið af bókasöfnum heimsins af hans líkum og eytt til að vernda fjárplógsstarfsemi kirkju hans og það vissi hann líka. Höfundi var síðan eytt guðfræðilega í sýru akademískrar þöggunar. En ekki vissi þó klerktitturinn um eintakið lúna sem slapp til elgslands né þekkti óendanlega þrjósku mína þegar kemur að því að fá botn í eitthvað. Heimildalistinn reyndist heiðingjanámur Salómons í öðru veldi og sumarið fór í að kafa á bókaslóðum þar sem enginn annar var á veiðum er augað sá. Ég bankaði upp hjá prófessornum um haustið í pásu á skrifstofu hans til að þakka honum fyrir ábendinguna og hann varð undrandi þegar hann heyrði að ég hefði fundið bókina og bauð mér sæti. Á hann kom áhyggjuhrukka þegar ég spurði hann hvers vegna okkur hefði ekki verið kennt í kirkjusögunni á fyrsta og öðru ári að árið 250 eftir krist hefðu verið 80 mismunandi kirkjudeildir sem lifðu í sátt hver við aðra eins og nú og rétttrúnaður og villutrú þekktist ekki. Og að árið 395 var bara ein eftir. Rómversk Katólsk. Og að Biskupar, prestar og stríðsmunkar hennar ásamt sturluðum fylgjendum sínum höfðu drepið alla hina með því að brenna þá á báli bóka sinna. Nú var komið flóttalúkk á minn svo ég skaut á hann spurningavélbyssugusum með dum dum kúlum úr bókum heimildalistans og ímyndaði mér að ég væri Hannes Hólmsteinn í kappræðum viv kommúnista. Honum varð helvígðum ekki um sel og hann stundi upp "Djöfull ertu búinn að lesa drengur". "Erum við ekki hér til þess?" svaraði ég og sleppti þremur tundurskeytum lausum í einu neðanþindar um leið og ég kastaði á hann djúpsprengju. Engu gat hann svarað enda kökkur í hálsi og svitaperlur í mótorkrossi niður hrukkað ennið og allt í einu var hann orðinn of seinn eitthvert, stóð upp snarlega, leiddi mig að dyrunum með alstol í augum og örvæntingarsvip á meðan hann hristi úfinn kollinn og hóstaði í skegg sér kálfkjökrandi "Ég hefði aldrei átt að benda þér á þessa bók". Um jólin voru dagar mínir taldir í hindurvitnadeild hí. Þetta var fyrir 25 árum en nú er hægt að fá þetta öndvegisrit upprisið á amazon.


Einfeldi

Ég er búinn að fatta hvernig á að redda Íslandi.  

Er búinn að stofna Einfalda Flokkinn.  

Í honum er bara einn.

Ég.

Fái Einfaldi Flokkurinn meirihluta í næstu kosningum mun hann leggja niður alþingi til að losna við karpið og breyta Íslandi úr útúrflóknu og seinvirku hagsmunakerfiskallalýðveldisdrasli  í einfalt, hraðvirkt, afkastamikið og afar arðbært vitsmunaeinfeldi.

Ríkisstjórn verður ráðin erlendis.  Nóbelsverðlaunahafar eða aðrir akademískir afreksmenn og reynsluboltar við virta erlenda háskóla, sérfræðingar í hinum ýmsu málaflokkum ríkisrekstrar verða ráðnir í viðkomandi ráðherrastóla til að fá eitthvert vit í græjuna.  

Forsætisráðherra verður viðsnúnings sérfræðingur, eldklár, hámenntaður og hálfmanískur forstjóri ginntur með ofurlaunum frá alþjóðlegu nýsköpunarrisafyrirtæki með yfir 350 þúsund starfsmenn sem hefur náð ótrúlegum árangri í að snúa sjúklegu tapi í óhemjulegan gróða á örskömmum tíma eftir að hann tók við stjórnartaumum.  Laun verða árangurstengd með bónusum og share options til að virkja í honum græðgina og stuðla að hámarksárangri.

Forsetaembættið verður lagt niður, Óli settur á verkamannaeftirlaun og síðan á Grund fyrir hrokan og Dorrit send þangað sem hún borgar skatta.  Bessastaðir verða innréttaðir fyrir útigangsmenn.

Formaður Einfalda Flokksins verður krýndur Konungur Íslands.  

Það er löngu kominn tími til að landsmenn fái alvöru íslenskan kóng eftir að hafa þurft að gera sér gormælta útlendinga að góðu um aldir. Hans hlutverk er hafa auga með ríkisstjórninni og vera almennilegur við almenning.   Konungdæmið mun þykja einstakt og laða að enn fleiri ferðamenn og þar með auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar verulega.

Embættið verður launalaust.  Beinn kostnaður Konungs af embættinu skal þó greiddur úr ríkissjóði.

Með þessu vinnst tvennt í íslenskri pólitík sem væri ígildi þess að hjálparsveitarmanni á sterum hefði tekist að bjarga lífi egypskrar múmíu.  

Í fyrsta lagi verður frændhygli útrýmt úr ríkinu því ráðherrar eru útlenskir og þekkja enga á Íslandi sem þurfa óeðlilega fyrirgreiðslu né eiga hér frændur.  Að auki hafa þeir svarið konungi hollustueiða hvers brot varðar höfuðmissi.

Í öðru lagi verður andverðleikum útrýmt úr ríkinu því ráðherrar eru andleg ofurmenni hver á sínu sviði og eftir höfðinu dansa limirnir. Það verður reyndar fyrsta verk þeirra fyrir Konung og kjósendur hans að grisja undirmálshyskið úr hinu opinbera og ráða þá hæfustu til starfa.

Þar með eru íslensk stjórnmál laus við tvíhöfða djöful þann er olli hruninu á Ísland og gerði það að verkum að enginn maður með viti vill eiginlega búa þar lengur.

Einfaldi Flokkurinn telur að með þessum aðgerðum verði hægt að redda Íslandi og allir geti haft það mjög fínt.

Það er yfirlýst stefna Einfalda Flokksins að allir skuli hafa það mjög fínt.

Það er bjargföst sannfæring Einfalda Flokksins að öðruvísi verði Íslandi ekki reddað og þá  hafa sumir það bara mjög fínt og aðrir alls ekki sem er óréttlátt, ósanngjarnt og óþolandi með öllu. 

Þegar Einfaldi Flokkurinn kemst til valda og allir eru farnir að hafa það mjög fínt er óþarfi að kjósa aftur um eitt eða neitt.  

Forðumst að flækja málin.

Einfaldið.

Kjósið X-E

Einfaldi Flokkurinn


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband