Einfeldi

Ég er búinn að fatta hvernig á að redda Íslandi.  

Er búinn að stofna Einfalda Flokkinn.  

Í honum er bara einn.

Ég.

Fái Einfaldi Flokkurinn meirihluta í næstu kosningum mun hann leggja niður alþingi til að losna við karpið og breyta Íslandi úr útúrflóknu og seinvirku hagsmunakerfiskallalýðveldisdrasli  í einfalt, hraðvirkt, afkastamikið og afar arðbært vitsmunaeinfeldi.

Ríkisstjórn verður ráðin erlendis.  Nóbelsverðlaunahafar eða aðrir akademískir afreksmenn og reynsluboltar við virta erlenda háskóla, sérfræðingar í hinum ýmsu málaflokkum ríkisrekstrar verða ráðnir í viðkomandi ráðherrastóla til að fá eitthvert vit í græjuna.  

Forsætisráðherra verður viðsnúnings sérfræðingur, eldklár, hámenntaður og hálfmanískur forstjóri ginntur með ofurlaunum frá alþjóðlegu nýsköpunarrisafyrirtæki með yfir 350 þúsund starfsmenn sem hefur náð ótrúlegum árangri í að snúa sjúklegu tapi í óhemjulegan gróða á örskömmum tíma eftir að hann tók við stjórnartaumum.  Laun verða árangurstengd með bónusum og share options til að virkja í honum græðgina og stuðla að hámarksárangri.

Forsetaembættið verður lagt niður, Óli settur á verkamannaeftirlaun og síðan á Grund fyrir hrokan og Dorrit send þangað sem hún borgar skatta.  Bessastaðir verða innréttaðir fyrir útigangsmenn.

Formaður Einfalda Flokksins verður krýndur Konungur Íslands.  

Það er löngu kominn tími til að landsmenn fái alvöru íslenskan kóng eftir að hafa þurft að gera sér gormælta útlendinga að góðu um aldir. Hans hlutverk er hafa auga með ríkisstjórninni og vera almennilegur við almenning.   Konungdæmið mun þykja einstakt og laða að enn fleiri ferðamenn og þar með auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar verulega.

Embættið verður launalaust.  Beinn kostnaður Konungs af embættinu skal þó greiddur úr ríkissjóði.

Með þessu vinnst tvennt í íslenskri pólitík sem væri ígildi þess að hjálparsveitarmanni á sterum hefði tekist að bjarga lífi egypskrar múmíu.  

Í fyrsta lagi verður frændhygli útrýmt úr ríkinu því ráðherrar eru útlenskir og þekkja enga á Íslandi sem þurfa óeðlilega fyrirgreiðslu né eiga hér frændur.  Að auki hafa þeir svarið konungi hollustueiða hvers brot varðar höfuðmissi.

Í öðru lagi verður andverðleikum útrýmt úr ríkinu því ráðherrar eru andleg ofurmenni hver á sínu sviði og eftir höfðinu dansa limirnir. Það verður reyndar fyrsta verk þeirra fyrir Konung og kjósendur hans að grisja undirmálshyskið úr hinu opinbera og ráða þá hæfustu til starfa.

Þar með eru íslensk stjórnmál laus við tvíhöfða djöful þann er olli hruninu á Ísland og gerði það að verkum að enginn maður með viti vill eiginlega búa þar lengur.

Einfaldi Flokkurinn telur að með þessum aðgerðum verði hægt að redda Íslandi og allir geti haft það mjög fínt.

Það er yfirlýst stefna Einfalda Flokksins að allir skuli hafa það mjög fínt.

Það er bjargföst sannfæring Einfalda Flokksins að öðruvísi verði Íslandi ekki reddað og þá  hafa sumir það bara mjög fínt og aðrir alls ekki sem er óréttlátt, ósanngjarnt og óþolandi með öllu. 

Þegar Einfaldi Flokkurinn kemst til valda og allir eru farnir að hafa það mjög fínt er óþarfi að kjósa aftur um eitt eða neitt.  

Forðumst að flækja málin.

Einfaldið.

Kjósið X-E

Einfaldi Flokkurinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband