Rafsegulguð.

koren

Þetta er Koren hjálmurinn. Hann er nefndur eftir Stanley Koren uppfinningamanni sem bjó hann til. Þetta er venjulegur mótorhjólahjálmur með óvenjulegum viðbótum. Á honum eru málmskaut sem geta sent rafsegulbylgjur á ákveðna staði í heila þess sem ber hann. Tækið var smíðað í samvinnu við Dr. Michael Persinger við Stanford háskóla. Persinger er heila og taugasérfræðingur og var fyrstur manna til að rannsaka með hátækni hvað er á seyði í heila þeirra manna sem trúa á guð enda hundheiðinn vísindamaður sjálfur. Til þess notaði hann segulómunartæki og síðar jáeindaskanna og leiddu þær rannsóknir til smíði hjálmsins og upphafs svonefndrar taugaguðfræði. Persinger hafði ómað og skannað alls konar trúmenn og bað þá biðja bænir eða hugleiða eða bara gera það sem kæmi þeim í samband við þeirra æðri mátt meðan hann skoðaði inn í hausana á þeim. Sama heilastöðin sýndi mesta virkni hjá þeim öllum er þeir þóttust komnir í samband við almætti sitt og gilti einu hverrar trúar þeir voru og hvaða aðferð þeir notuðu. Sú heilastöð er í hægra gagnaugablaði. Taugafræðingar vita að lágspennu segulsvið er til staðar í heilanum og Því datt vini vorum í hug hvort hægt væri að örva þennan stað með rafstuði og framkalla sömu hughrif vélrænt. Þeir smíðuðu því hjálminn og fóru að stuða heilabörk og frumur forvitinna nemenda sinna. Alvöru árangri náðu þeir fyrst er félaga þeirra Dr Alex Thomas tókst að reikna út réttan styrk og tíðni rafsegulbylgja þeirra er skotið var á heimili guðs í gagnaugablaðinu hægra. Var rafpúlsinn rétti nefndur eftir honum og er kallaður Thomas Pulse af taugaguðfræðingum. Hann framkallaði tilfinningu meðal allra sem prófaðir voru um að ósýnileg ofurvera væri mætt á svæðið. Sem kom ekki á óvart því að heilastöð þessi er ekki bara hús guðs heldur höfuðból og miðstöð flogaveikinnar sem veldur á köflum svæsnum ofskynjunum. Var hún kölluð Maladia Sacra á miðöldum af pípukragaflathausum krists sem þýðir heilaga veikin. Ef styrkurinn var aukinn heyrðu tilraunadýr klukknaspil og síðan englaraddir af himnum ofan. Á fullum styrk upplifðu þau innilegan samruna eigin sálar við alheiminn, sannfærðust um eilíft líf og heyrðu um leið djúpa bassarödd sem sagði "Þú ert mitt elskaða barn sem ég hefi velþóknun á". Tilraunir þessar fréttust fljótt um skólann og brátt stóðu trúlausir raungreinakennarar í biðröð eftir því að fá að prófa Guðshjálminn. Eftir að Richard Dawkins liffræðingur og höfundur bókarinnar Ranghugmyndin Guð hafði upplifað það sama í hjálminum og kaþólskur klerkur með kórdreng í skrúðshúsi eftir messu lék enginn vafi lengur á því hvað trúartilfinningar og trúarupplifanir eru. Þær eru fyrsta stig flogaveiki og er bornar voru saman vitranir og sýnir kristinna sjáenda og helgra manna í gegn um aldirnar við seinni tíma sjúkraskýrslur geðlækna um ofskynjanir fólks í stjarfaflogi var engan mun að finna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband