Er Guð Kærleikur?

Eftir því sem vísindamenn komast nær þeim sannleik að Jesú Kristur er heilaspuni hugsjúkra, fyrir utan að faðir hans er fyrrum Fönikískt skurðgoð, freistast klerkar kirkju hans í auknum mæli að nota óhlutbundna eða abstrakt túlkun til að lýsa eðli hins almáttka.  

Guð er ekki lengur ægivald sem þarf að óttast og hlýða heldur er hann orðinn það góða í manninum eða alltumvefjandi kærleikur.  Hvernig kærleikurinn eða hið góða í manninum skapaði himinn og jörð eða svarar bænum er þó alveg látið liggja á milli hluta enda aukaatriði í þessari blekkingaróperu sjálfskipaðra klerka hans.  

Það vill hinsvegar svo vel til að Guð kristinna manna er víðlesinn rithöfundur og hefur skrifað tvær bækur um sjálfan sig samkvæmt kenningum þjóðkirkjunnar.  Gyðingar, sem fyrstir kynntust honum vilja þó meina að hann hafi eingöngu skrifað eina bók en Múslimar fullyrða að hann hafi skrifað þrjár.

Í fyrstu sjálfsævisögunni er að finna greinargóðar lýsingar á Guði Föður vorum og geðslagi hans sem er mun skyldara mannhatri en mannelsku og virðist sem klerkar hans íslenskir hafi ekki tekið eftir þessum eðlisþáttum þess þríeina í kærleiksvímu sinni fyrir jólin eða gleymt að lesa þetta metsölurit skapara síns að fullu en enginn er eins blindur og sá sem ekki vill sjá, hafi þeir gert það.

Sé Gamla Testamentið skoðað með opin augun kemur eftirfarandi í ljós.

Samkvæmt Jósúabók 10:11 drepur hann fleiri óvini Gyðinga en þeir sjálfir.  Hann myrti með eigin hendi 185.000 Assýringa á einni nóttu. (2. Konungabók 19:35)  Hann hvetur ennfremur áhangendur sína til manndrápa og fyrirskipar þjóðarmorð. Hann segir Jósúa að drepa allt kvikt í borginni Ai,  samtals 12.000 menn og konur (Jósúabók 8:1-29) en áður hafði hann boðið honum að gereyða Jeríkó og lét sálga þar öllu sem lífsanda dró, mönnum, konum, börnum, nautgripum, sauðfé og ösnum öllum fyrir það eitt að vera til. (Jósúabók 6:15-21)

Hann harðbannar ítrekað fylgjendum sínum að vorkenna öðrum eða sýna þeim nokkra miskun. (5. bók Móse 7:2, Esekíel 9:5-6)  Þá fremur hann og fjöldamorð á saklausum börnum sjálfur(2. bók Móse 12:29)  en börn mannana eru í verstu málum í fyrsta hluta æfisögu þessa himneska skrímslis. Þeim er harðlega refsað fyrir glæpi foreldra sinna og þeim mönnum er ekki fara að lögum hans er gert að éta eigin afkvæmi. (3. bók Móse 26:29 og 5. bók Móse 28:53)

Þegar strákahópur gerði grín að skalla Elísa spámanns formælti hann þeim í Guðs nafni en almættið sendi samstundis grimmt bjarndýr á staðinn sem reif 42 af drengjunum í tætlur fyrir sprellið.  Einnig finnst honum sjálfsagt að refsa saklausum. Samkvæmt boðorði númer tvö mun hann refsa börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum þeirra er óhlýðnast boðum hans. (2. Mósebók 20:4-5)  Og hann stendur við orð sín ítrekað.

Í Gamla Testamenti Biblíunnar drepur Guð Faðir vor og Skapari þríeinn alls 2.270.971 manneskju, sem flestar voru alsaklausar af nokkrum syndum. Andskotinn tók líf 10 manna á sama tímabili en á sér þær málsbætur að Guð skipaði honum að gera það.  Hér eru ekki taldar með gjöreyðingarherferðir hans gegn Sódómu og Gómorru né heldur mannfall Nóaflóðsins.

Hann virðist því samkvæmt eigin heilaga orði ekki hafa glóru um það sem nútímamenn kalla réttlæti og góðmennsku en ber öll merki siðblindra fjöldamorðingja og sturlaðra sadista.

Að túlka þennan brjálaða morðhund sem kærleik og kalla hið góða í manninum er eingöngu á færi þeirra sem eru með Kandídatspróf í Lygi frá Guðfræðideild Háskóla Íslands.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband